Flugvélin TF-Ögn

Flugvélin TF-Ögn er vafalaust eitt merkasta fyrirbrigði íslenskrar flugsögu. Hún er fyrsta vélin sem er alfarið hönnuð og smíðuð á Íslandi. Smiðirnir Gunnar Jónasson og Björn Olsen hófu verkið árið 1931.

Flugvélin TF-Ögn - FrímerkiGunnar Jónasson, fæddur 13. sept. 1907, lauk mótoristaprófi á Eyrarbakka 1922. Aðeins 16 ára gamall fór hann til Reykjavíkur, stundaði járnsmíðanám hjá Þorsteini Jónssyni járnsmíðameistara á Vesturgötu 33 í Reykjavík, og lauk þaðan sveinsprófi árið 1927. Sumarið 1928 réðst hann ásamt Birni Olsen til Flugfélags Íslands, en síðar sama ár, fyrir atbeina dr. Alexanders Jóhannessonar, síðar rektors Háskóla Íslands, fóru þeir í flugvirkjanám hjá Lufthansa í Berlín. Þaðan útskrifaðist hann sem fyrsti íslenski flugvirkinn með skírteini númer eitt og Björn Olsen með skírteini númer tvö, árið 1929.

Gunnar hóf þá aftur störf hjá Flugfélagi Íslands og sá ásamt Birni Olsen, skólabróður sínum frá Berlín, um viðhald og viðgerðir á flugvélum félagsins. Hjá Flugfélagi Íslands starfaði hann til ársins 1931, en það ár hætti félagið rekstri. Gunnar og Björn Olsen hættu þó ekki afskiptum af flugmálum. Í lok ársins 1931 hófu þeir smíði flugvélar, og fullsmíðuð en hreyfillaus var flugvélin TF-Ögn sýnd í KR-húsinu hinn 12. júní 1932.

Flugvélinni var fyrst reynsluflogið 23. nóvember 1940, flugmaður var Örn Johnson fostjóri Flugfélags Íslands, en vegna hernáms Breta var þeim skipað að taka vélina í sundur og setja í geymslu. Ögnin var gerð upp áratugum síðar af Gunnari ásamt félögum í Flugsögufélagi Íslands og hékk hún í lofti Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar á Keflavíkurflugvelli til margra ára.

Vélin tók einn farþega. Hreyfill vélarinnar er af gerðinni Gispy I. Vænghafið er 7,25 m, lengdin 6 metrar og hún náði 125 km hraða á klukkustund. Íslenska flugsögufélagið annast varðveislu vélarinnar.

TF-Ögn er verðskuldaður minnisvarði um hugkvæmni, framsýni og dugnað brautryðjendanna Gunnars Jónassonar og vinar hans Björns.

Á árinu 2001 gaf Pósturinn út 55 kr. frímerki með mynd af Ögninni.