Um Stálhúsgögn

Sigmund

Stálflex - Laugavegur 11Árið 1933 stofnuðu Gunnar Jónasson og Björn M. Olsen fyrirtækið Stálhúsgögn. Fyrstu ár fyrirtækisins einkenndust af miklum verkefnum fyrir flugfélögin. Eftir lát Björns 1942 vann Gunnar Jónasson, þá forstjóri og eigandi Stálhúsgagna, áfram að fjölda sérhæfðra verkefna á sviði flugmála. Fyrirtækið smíðaði m.a. stóla í þrjá Katalínaflugbáta, sem Flugfélag Íslands keypti árið 1944, og Gunnar aðstoðaði Loftleiðamenn við val á fyrsta flugbáti félagsins.

Stálhúsgögn var í marga áratugi brautryðjandi á sínu sviði. Gunnar starfaði við fyrirtæki sitt þar til hann nálgaðist nírætt. Hann hannaði framleiðsluvörurnar og smíðaði verkfæri og heilu vélasamstæðurnar sem til þurfti við framleiðsluna, en hann vann alltaf á “gólfinu” og stjórnaði fyrirtækinu þaðan.

StálflexFyrirmyndina að smíði stálhúsgagna fékk Gunnar í Þýskalandi, en fyrirtæki í Austurríki var þá nýbyrjað með stálhúsgagnagerð og sá Gunnar framleiðsluna hjá þeim. Var þetta alger nýlunda á þeim tíma. Fyrstu árin ráku þeir Gunnar og Björn Olsen fyrirtækið saman í kjallaranum hjá dr. Alexander og ráku verslun að Laugavegi 11, en fengu fljótlega lóð á Skúlagötu 61.

Vinna við grunninn að húsinu hófst 1942, árið sem Björn M. Olsen lést, en Gunnar ákvað að halda áfram með bygginguna. Fyrirtækið óx og dafnaði undir stjórn Gunnars, sem af dugnaði og hugvitssemi vann að hönnun og framleiðslu stálhúsgagna.

Gunnar sat í stjórn Félags íslenskra iðnrekenda 1956-1962 og hafði framtíðarsýn fyrir hönd íslensks iðnaðar.

Stálflex - StóllÁrið 2005 voru fasteignir seldar félagi tengdu Eykt og allar vélar seldar úr landi. Í dag er Skúlagatan á þessum stað horfin (heitir Guðríðarstígur) og húsið hvarf 2008. Það sem eftir er, þ.e. nafnið og minningin um Stálhúsgögn fyrri tíma, er nú rekið með nútíma samskiptatækni að sömu verkefnum og áður.

Stálhúsgögn er nú í eigu fjölskyldu Björns, yngsta sonar Gunnars og Önnu konu hans. Síðasta stórverkefni sem tengja má Stálhúsgögnum eru um 2300 föst sæti í sali HÖRPU tónlistar- og ráðstefnuhúss í Reykjavík.

Dæmi um verkefni